Thursday, March 6, 2014

uppáhaldshlutir heimilisins

það virðist gerast þegar maður fullorðnast að maður eignast allskonar dót.  ég hef til dæmis aldrei átt ísskáp, tvo sófa, stofuborð, sjónvarp, hillur, rúmdýnu, þvottavél þannig sko.  nei aldrei bara.  nú á ég þetta allt saman.   ég get ekki sagt kannski að við höfum mikið verið að spá í þægindum eða hagnýti hvað varðar kaup á húsgögnum í haust (þá er ég klárlega fyrst og fremst að tala um klippan sófana okkar sem rúma okkur á hvora kantana og við getum eiginlega ekki legið saman upp í sófa án þess að ég sé með olnboga og hæla í augunum á baldri).  en hvað um það.  við eigum 2 sófa.  getum bara hundskast til að hanga sitt í hvoru lagi.  sem við gerum.  mikið.  stundum með hedfóna.  mögulega eru klippan sófarnir að rífa stoðirnar undan þessu sambandi.  kannski er það ástæðan fyrir að nágrannakonan heldur að við séum systkin.

en hvað um það.  mikilvægari eru hlutirnir sem gefa heimilinu sál.  það hef ég sagt áður.  ég á helling af svoleiðis hlutum.  flestir virðast þeir tengjast ömmum mínum.  það er ekkert verra enda báðar svo einstakar.


mamma hefur síðustu ár tekið upp á þeirri snilld að leita ekki langt yfir skammt að jólagjöfum handa örverpinu sínu.  eiginlega þarf hún að teygja sig úr sófanum á aðfangadag til að grípa í eitthvað.  eins og  í hittifyrra þegar ég fékk þennan kistil.  hann hefur verið inn í stofu heima frá því að ég man eftir mér.  stílaður á ömmu hrefnu árið 1956, frá mömmu hennar.  handmáluð gersemi. nú á ég hann.  



Í fyrra gaf hún mér svo þessa mynd sem einmitt hefur líka hangið inn í herbergi hjá mömmu og pabba síðan ég man eftir mér.  minnir að þetta sé mynd frá einhverri langömmu minni á djúpavogi.  svo falleg biblíumynd.  aah, ég sakna biblíumyndanna í sunnudagaskólanum.  


talandi um fallegar myndir þá held ég mikið upp á þetta málverk frá ömmu elsu í sæbergi.  hún málaði landslagsmyndir frá borgarfirði handa öllum börnum og barnabörnum sínum þegar hún var um áttrætt.  við erfisdrykkjuna hennar mættu allir með sína mynd og úr varð falleg málverkasýning.  


og ekki er hin amman ólagnari.  þessa litaði hún handa mér í fyrra og setti í ramma og sendi mér.

það síðasta sem ég keypti mér í góða hirðinum var þessi plötukassi.  á þessari hlið stendur canada dry en á hinni hliðinni egils.  hann er aðeins farinn að láta á sjá greyið en er kominn í góðar hendur.  lappa upp á hann von bráðar.  ukuleleið gaf baldur mér í útskriftargjöf.  þar vissi hann alveg hvað hann var að gera.  svo er billie holiday platan auðvitað best.  það sem vantar tilfinnanlega núna:  plötuspilari.  hehe. he.


ég elska bókaheimili.  ég vil eiga fullt af bókum.  ég vil að börnin mín alist upp við að lesa múlaþing og gletting.  mínar þjóðfræðibækur eru í einum skáp.  trúarbragðabækurnar hans baldurs eru í öðrum.  


þetta nýja krútt fengum við í jólagjöf og heldur sig aðallega bara upp á skáp og hefur það kósý.


nýja uppáhalds eru póstkortin frá ljósmyndasafni reykjavíkur sem prýða einn vegg.  


jón sigurðsson stendur nú vörð um skartgripi húsmóðurinnar.  áður fyrr gerði hannes hafstein það.  hann týndist hinsvegar í flutningum.  eflaust fundist þetta heldur óvirðuleg staða.  skartgripahengið er eftir áslaugu hönnu og er fáránlega hentugt.


og í lokin er það trompið.  yfirlýst tromp.  birgitta systir gaf mér þennan púða í 25 ára afmælisgjöf í desember.  hún bjó hann sjálf til.  EKKI nóg með það heldur er hann búinn til úr velúrpeysu sem amma í sæbergi var alla jafna í á gamalsárum.  það var meira að segja ennþá ömmulykt af honum þegar ég fékk hann.  held ég sé búin að hnusa hana alla úr.  hún er komin upp í heila.  og verður þar.





No comments:

Post a Comment