ég held að mér myndi líka mun betur við lífið ef í því væru fleiri rúllustigar. í alvöru. mér líður hvergi betur en í rúllustigum. einu sinni fóru mamma og pabbi í bíó á titanic í kringlunni (notabene, mamma fór þrisvar á titanic í bíó og fékk svo vídjóspóluna í jólagjöf frá hugulsömum börnum hennar - alveg sjúkíetta). ég fór auðvitað ekki með þegar ég vissi að ég hefði möguleikann á því að ferðast upp og niður rúllukragastigann í kringlunni í þá þrjá klukkutíma sem myndin væri í sýningu. ég var ekkert búin að fara margar ferðir þegar ég var vinsamlegast beðin um að drulla mér úr rúllustiganum. þetta væri ekki leiktæki. mig minnir að elsa systir hafi verið með mér, þá á fermingaraldri með spangir og gleraugu og skammaðist sín aldrei meir fyrir vanheilu systur sína í afabolnum sem ljómaði öll og skrækti úr gleði meðan hún prófaði allskonar stellingar í stiganum.
æj og ó, litla sveitastelpan sem langaði bara að upplifa gaman borgarinnar sem ég hafði svo oft séð í fréttunum.
ég er löngu búin að átta mig að þetta eru engin leiktæki. í dag eru þetta svona hugleiðslutæki. ég vildi að allir rúllustigarnir í kringlunni væru svona fjórtán sinnum lengri en þeir eru. þá fæ ég enn lengri tíma í að virða fyrir mér fólkið og þarf ekki að hugsa um að lyfta fótunum eða labba á. uppáhalds rúllustiginn minn er á kastrup. hann er samt ekki nærri því nógu langur en kemst því nærri.
ég veit ekki, kannski er þetta svona eins og að láta keyra sér um í kerru eða draga sig á sleða. þurfa ekki að hugsa neitt. ég er svo hrikalega góð í því. ég man eftir að hafa þvingað móður mína til að keyra mig um í kerru og reyna að svæfa mig, þá rúmlega 5 ára sennilega. yfir mig afbrýðissöm yfir því að þorri (þremur árum yngri) fékk að sofa í kerru í göngutúrum en ekki ég. ég sofnaði ekkert. bað reyndar líka um að fá að pissa í bleyju í lautarferð á svipuðum aldri. það er svo mikið allt önnur saga og óviðeigandi.
að lokum er hérna myndband sem einhver hugulsamur einstaklingur hefur tekið upp bara fyrir mig. held ég. ég get horft á þetta í marga klukkutíma bara. geri það samt ekki, sérstaklega ekki hérna upp á bókasafni.
fæ kitl í heilann við þetta.
hvað er að mér.
eru engir fleiri að tengja við þetta?