Tuesday, February 25, 2014

rúllustigablætið

ég held að mér myndi líka mun betur við lífið ef í því væru fleiri rúllustigar.  í alvöru.  mér líður hvergi betur en í rúllustigum.  einu sinni fóru mamma og pabbi í bíó á titanic í kringlunni (notabene, mamma fór þrisvar á titanic í bíó og fékk svo vídjóspóluna í jólagjöf frá hugulsömum börnum hennar - alveg sjúkíetta).  ég fór auðvitað ekki með þegar ég vissi að ég hefði möguleikann á því að ferðast upp og niður rúllukragastigann í kringlunni í þá þrjá klukkutíma sem myndin væri í sýningu.  ég var ekkert búin að fara margar ferðir þegar ég var vinsamlegast beðin um að drulla mér úr rúllustiganum.  þetta væri ekki leiktæki.   mig minnir að elsa systir hafi verið með mér, þá á fermingaraldri með spangir og gleraugu og skammaðist sín aldrei meir fyrir vanheilu systur sína í afabolnum sem ljómaði öll og skrækti úr gleði meðan hún prófaði allskonar stellingar í stiganum. 

æj og ó, litla sveitastelpan sem langaði bara að upplifa gaman borgarinnar sem ég hafði svo oft séð í fréttunum.  

ég er löngu búin að átta mig að þetta eru engin leiktæki.  í dag eru þetta svona hugleiðslutæki.  ég vildi að allir rúllustigarnir í kringlunni væru svona fjórtán sinnum lengri en þeir eru.  þá fæ ég enn lengri tíma í að virða fyrir mér fólkið og þarf ekki að hugsa um að lyfta fótunum eða labba á.  uppáhalds rúllustiginn minn er á kastrup.  hann er samt ekki nærri því nógu langur en kemst því nærri.  

ég veit ekki, kannski er þetta svona eins og að láta keyra sér um í kerru eða draga sig á sleða.  þurfa ekki að hugsa neitt.  ég er svo hrikalega góð í því.  ég man eftir að hafa þvingað móður mína til að keyra mig um í kerru og reyna að svæfa mig, þá rúmlega 5 ára sennilega.  yfir mig afbrýðissöm yfir því að þorri (þremur árum yngri) fékk að sofa í kerru í göngutúrum en ekki ég.  ég sofnaði ekkert.  bað reyndar líka um að fá að pissa í bleyju í lautarferð á svipuðum aldri.   það er svo mikið allt önnur saga og óviðeigandi.  

að lokum er hérna myndband sem einhver hugulsamur einstaklingur hefur tekið upp bara fyrir mig.  held ég.  ég get horft á þetta í marga klukkutíma bara.  geri það samt ekki, sérstaklega ekki hérna upp á bókasafni.  


fæ kitl í heilann við þetta.   
hvað er að mér.
eru engir fleiri að tengja við þetta?

Tuesday, February 18, 2014

splitt- áskorunin 2014

ég hef haft hug á markmiði mjög lengi.  í alveg mörg ár.  aldrei framkvæmt.  stundum virðist bara miklu betra að hugsa í mörg ár um hugmyndina um að gera eitthvað.  nú verð ég að framkvæma.  

ég ætla að komast í splitt á árinu 2014, gott fólk.  

ég er auðvitað búin að gúggla hvernig maður gerir það.  helst sko hvernig maður getur gert það á aðeins einum degi.  finn ekkert um það.  en guði sé lof fyrir jútjúb og allt sjittið þar.  ófáir hlutirnir sem ég hef lært af einhverjum lúðum út í heimi.  stilli einmitt alltaf ukulele-ið mitt eftir einhverju vídjói frá gömlum manni í asíu.  ekkert helvítis tuner app fyrir mig.

á jútjúb eru auðvitað milljón flexibility myndbönd.  stundum skil ég ekki af hverju ég fer í ræktina þegar ég get í raun gert allar æfingarnar upp í rúmi bara, með jútjúb.  

en hvað um það.  hér er t.d. eitt sem mér líst agalega vel á.


ég er náttúruleg ekki nálægt því að vera eins lipur og þessi ágæta stúlka.  þetta verður áhugavert.  ástæðan fyrir því að ég pósta þessu hér er auðvitað svo fólk geti farið að hvetja mig áfram og látið mig fá samviskubit með spurningum þegar ég hef ekki gert þessar æfingar dögum saman.  en í alvöru, ég mun gera þetta á hverjum degi þangað til ég get þetta.  ekki spyrja baldur neitt út í það samt, trúið mér bara.

það verður áhugavert að sjá hvað þetta tekur langan tíma.
ÁFRAM SPLITT 2014.

Wednesday, February 5, 2014

good old skerjó

haustið 2010 fluttum ég og ásta hlín í gamalt hús í skerjafirði og héldum á vit nýrra ævintýra.  háskóla- og drykkjuævintýra.  einhleypar og snarvitlausar.  


ég féll fyrir þessari íbúð um sumarið eftir að hafa skoðað hana.  mikill karakter í gangi.  íbúð sem allskonar skítmix einkenndi.  þar sem vantaði gólfefni var yfirleitt búið að hrúga steinum til að fylla upp í og yfir óútskýranleg göt í gólfi var búið að negla mottu fasta yfir.  enginn vissi eða vildi vita hvað leyndist þar undir.  þrátt fyrir allt þetta þá hefur mér örugglega aldrei liðið jafn vel í eigin íbúð - meira að segja þegar mig dreymdi einhvern sem sagðist vera "konan á gömlu hæðinni". say what?
ótalmargar góðar minningar tengjast þessum stað - hlátur, grátur, hláturgrátur, gleði, sorg, pirringur og allskonar fleira sem fylgir sambúð sem stelpu.  ég deildi íbúðinni sennilega jafn mikið með ástu og öllum öðrum íbúum hússins því það voru svo þunnir veggir.  þess vegna lít ég á hósta-kristján í íbúðinni við hliðina sem jafngóðan vin og ástu - og eins er farið með konuna á efri hæðinni sem fannst greinilega ekki nógu hljóðbært þannig að hún ákvað að taka gólfefnin af íbúðinni sinni og þannig magna allan hávaða frá sér.  kaffivélin á morgnanna hjá henni hljómaði eins og boeing þota væri að taka á loft bara upp á þaki.  það á ekki að vera hægt.
svo ég tali nú ekki um hvað það er mikil snilld að búa við hliðina á þyrlupalli.  og þarna mómentin þegar flugvirkjarnir þurfa að prufa flugvélarnar út á miðjum velli og þenja þær í botn.  það voru móment sem maður þurfti að halda í allt lauslegt í eldhúsinu - því bókstaflega allt hristist.  kennaratyggjó var því staðalbúnaður í einarsnesinu.  

þarna erum við að flytja inn í annað sinn - fyrir og eftir.

jónas bjó hjá okkur í hálft ár.  stundum gerðum við pizzur.

sjáiði bara.  ég fyllist söknuði.


eftir þetta með þarna "konuna á gömlu hæðinni" þá langaði mig að athuga hvort það væri eitthvað til í því steitmenti.  var samt varla að þora því strax ef að einhver hrottalegur atburður hefði kannski átt sér stað í húsinu sem myndi skilja mig eftir andvaka alla dagana sem voru eftir af búsetu minni þarna.  sendi mail samt á ingu láru á ljósmyndasafni þjóðminjasafnsins sem gerði sé spes ferð út í skerjó til að skoða húsið.  hún sagði að húsið væri byggt um 1885 á eyrarbakka og hefði verið flutt í kringum 1930 út í skerjafjörð.  vá, það er svo fáránlega nett.   svo sendi hún mér mynd af því sem er úr myndasafni sigfúsar eymundssonar ljósmyndara.  þess má geta að konan á gömlu hæðinni virðist bara hafa verið að ljúga í mig.  


finnst ykkur ekki sturlað að þetta hús til hægri hafi verið flutt alla leið frá eyrarbakka og að ég hafi búið í því í 2 ár?  ég er búin að vera bara heilluð í rúmlega 2 ár yfir þessu.  ÞETTA ER SVO GEGGJAÐ.  nú keyri ég þarna framhjá (eða þið vitið, geri mér ferð) og stoppa í beygjunni fyrir utan.  sem verður að teljast frekar óhugnalegt.  eflaust óþægilegt fyrir núverandi íbúa íbúðarinnar þegar ókunnugur vegfarandi á ryðguðum nissan almera með lint í dekkjum starir inn um gluggann til að hnísast.   en só vott.  

þetta var samt bara það eina sem ég vildi segja.  hvað þetta er geggjað.