það verður nú seint sagt að ég gangi heil til skógar. það verður heldur aldrei talað um mig sem mikla matmanneskju svosem. nema á hluti sem eru ekki ætlaðir til manneldis. bara hreint alls ekki ætlaðir til manneldis. sögur af mér að borða svoleiðis hluti eru mögulega fleiri en góðu hófi gegnir. oftar sagðar á mannamótum. ég vil þó taka það fram að ég er ekki sú eina af systkinunum sem leggur þetta í ávana, heldur deilir hafþór bróðir með mér þessari áráttu. tökum dæmi um mína áráttu.
einu sinni ólst ég nánast upp í steinsmiðju. finnst líklegt að ég hafi eytt meiri tíma til dæmis í spreydeildinni í álfasteini heldur en heima hjá mér á þessum árum. enda var ég kölluð gulldrottningin lengi vel af starfsmönnum eftir að hafa ætlað að spreyja úr gylltum spreybrúsa sem á vantaði tappann svo ég ýtti bara vel á rörið með penna með þeim afleiðingum að enginn blettur á andlitinu á mér var húðlitaður. má sennilega þakka fyrir að ég sé ekki blind. ég borðaði samt ekki sprey ef þið haldið það. inn á lager mátti þó finna óendanlegar birgðir af UHU lími. ekki svona límstifti (þó ég hafi nú reyndar líka lagt dágóðan skammt af svoleiðis lími til munns) neinei. bara svona fljótandi lím. bakvið luktar dyr var þessu engu sparað í þessum málum heldur sprautað af fullum krafti í lófann á sér, nuddað saman, látið þorna og svo borðað af puttunum. hvað haldiði að það séu mörg eiturefni í þeim skammti? mig grunar að ég hafi lært þetta athæfi frá hafþóri.
sko, all purpose lím. líka borða.
ég hef heyrt að maður eigi ekki að nota snyrtivörur nema maður geti borðað þær. frétti þetta reyndar fyrir nokkrum árum. alveg löngu eftir að ég var byrjuð að borða snyrtivörur. gott að frétta svona eftirá. allt í lagi. nivea kremið í bláu dollunum. ég ætla ekki einu sinni að segja ykkur hvað ég held að ég hafi borðað margar dollur af þessu. ég var alltaf mjög samþykk því að fara í pössun til rúnu dóru frænku minnar því þá vissi ég að ég hefði greiðan aðgang að kreminu. sat löngum tímum á klósettinu að borða upp úr dollunni. einu sinni greip hún mig glóðvolga. ég neitaði allri sök. með nivea krems skegg. puttaför í því litla sem eftir var af kreminu.
vaselín og júgursmyrsl fara líka ofsalega vel í magann. hlýtur að smyrja eitthvað í leiðinni.
ég hef löngum verið hrifin af labello varasölvunum. þessum bláu þið vitið. sem er svona eins og tólg þegar maður er búinn að setja hann á og maður finnur ekki fyrir vörunum. elsa þurfti að fela alla varasalvana sína. ef ekki þá voru yfirleitt bitför í þeim öllum eftir mig. stundum eignaðist ég sjálf þannig. þeir voru ekki lengi að hverfa. fæ vatn í munninn við þessa mynd.
sagan sem langoftast er sögð af mér er þegar systir mín gifti sig og ég borðaði servíettur. ferlega fínn matur og allt það í boðinu. neinei. ég borðaði servíetturnar. leit ekki við svínakjötinu. mig minnir að þær hafi þó verið í lit. það þýðir litarefni. þær eru langt frá því að vera jafn góðar og þessar hvítu og hreinu. svo má ekki gleyma sleikjóprikinu af tyrkisk peber sleikjóunum. þeir fara iðulega líka alla leið niður í maga. stundum ópalpakkar líka. samt ekki mikið lengur.
ég hef náttúrulega aldrei getað tuggið tyggjó án þess að vilja kyngja því. það er bara eitthvað í munninum á mér sem segir mér að borða það. mig grunar að það sé ekki hollt svona til langs tíma litið þannig að ég hef reynt að minnka það. húbba búbba er verst. við eigum ekki samleið. það fer bara beint ofan í maga.
er þetta ekki allt bara frekar eðlilegt? af þessu að dæma virðist ég hafa staðnað á einhverju stigi freuds.
kannski ekkert skrítið að ég glími við allskyns magavandamál. uhu límið ennþá að borða sig inn í innyfli mín.
til að draga úr þessum viðbjóði ykkar á mér og öllum þessum hlutum vil ég taka fram að bróðir minn (sem á afmæli í dag) hefur borðað heilan inniskó.