Friday, April 4, 2014

hlutir sem ég hef borðað

það verður nú seint sagt að ég gangi heil til skógar.  það verður heldur aldrei talað um mig sem mikla matmanneskju svosem.  nema á hluti sem eru ekki ætlaðir til manneldis.  bara hreint alls ekki ætlaðir til manneldis.  sögur af mér að borða svoleiðis hluti eru mögulega fleiri en góðu hófi gegnir.  oftar sagðar á mannamótum.  ég vil þó taka það fram að ég er ekki sú eina af systkinunum sem leggur þetta í ávana, heldur deilir hafþór bróðir með mér þessari áráttu.  tökum dæmi um mína áráttu.

einu sinni ólst ég nánast upp í steinsmiðju.  finnst líklegt að ég hafi eytt meiri tíma til dæmis í spreydeildinni í álfasteini heldur en heima hjá mér á þessum árum.  enda var ég kölluð gulldrottningin lengi vel af starfsmönnum eftir að hafa ætlað að spreyja úr gylltum spreybrúsa sem á vantaði tappann svo ég ýtti bara vel á rörið með penna með þeim afleiðingum að enginn blettur á andlitinu á mér var húðlitaður.  má sennilega þakka fyrir að ég sé ekki blind.  ég borðaði samt ekki sprey ef þið haldið það.  inn á lager mátti þó finna óendanlegar birgðir af UHU lími.  ekki svona límstifti (þó ég hafi nú reyndar líka lagt dágóðan skammt af svoleiðis lími til munns)  neinei.  bara svona fljótandi lím.  bakvið luktar dyr var þessu engu sparað í þessum málum heldur sprautað af fullum krafti í lófann á sér, nuddað saman, látið þorna og svo borðað af puttunum.  hvað haldiði að það séu mörg eiturefni í þeim skammti?  mig grunar að ég hafi lært þetta athæfi frá hafþóri.

sko, all purpose lím.  líka borða.

ég hef heyrt að maður eigi ekki að nota snyrtivörur nema maður geti borðað þær.  frétti þetta reyndar fyrir nokkrum árum.  alveg löngu eftir að ég var byrjuð að borða snyrtivörur.  gott að frétta svona eftirá.  allt í lagi.  nivea kremið í bláu dollunum.  ég ætla ekki einu sinni að segja ykkur hvað ég held að ég hafi borðað margar dollur af þessu.  ég var alltaf mjög samþykk því að fara í pössun til rúnu dóru frænku minnar því þá vissi ég að ég hefði greiðan aðgang að kreminu.  sat löngum tímum á klósettinu að borða upp úr dollunni.  einu sinni greip hún mig glóðvolga.  ég neitaði allri sök.  með nivea krems skegg.  puttaför í því litla sem eftir var af kreminu.




vaselín og júgursmyrsl fara líka ofsalega vel í magann.  hlýtur að smyrja eitthvað í leiðinni.  

ég hef löngum verið hrifin af labello varasölvunum.  þessum bláu þið vitið.  sem er svona eins og tólg þegar maður er búinn að setja hann á og maður finnur ekki fyrir vörunum.  elsa þurfti að fela alla varasalvana sína.  ef ekki þá voru yfirleitt bitför í þeim öllum eftir mig.  stundum eignaðist ég sjálf þannig.  þeir voru ekki lengi að hverfa.  fæ vatn í munninn við þessa mynd.



sagan sem langoftast er sögð af mér er þegar systir mín gifti sig og ég borðaði servíettur.  ferlega fínn matur og allt það í boðinu.  neinei.  ég borðaði servíetturnar.  leit ekki við svínakjötinu.  mig minnir að þær hafi þó verið í lit.  það þýðir litarefni.  þær eru langt frá því að vera jafn góðar og þessar hvítu og hreinu.  svo má ekki gleyma sleikjóprikinu af tyrkisk peber sleikjóunum.  þeir fara iðulega líka alla leið niður í maga.  stundum ópalpakkar líka.  samt ekki mikið lengur.






ég hef náttúrulega aldrei getað tuggið tyggjó án þess að vilja kyngja því.  það er bara eitthvað í munninum á mér sem segir mér að borða það.  mig grunar að það sé ekki hollt svona til langs tíma litið þannig að ég hef reynt að minnka það.  húbba búbba er verst.  við eigum ekki samleið.  það fer bara beint ofan í maga.  


er þetta ekki allt bara frekar eðlilegt?  af þessu að dæma virðist ég hafa staðnað á einhverju stigi freuds. 
kannski ekkert skrítið að ég glími við allskyns magavandamál.  uhu límið ennþá að borða sig inn í innyfli mín.  

til að draga úr þessum viðbjóði ykkar á mér og öllum þessum hlutum vil ég taka fram að bróðir minn (sem á afmæli í dag) hefur borðað heilan inniskó.  

Tuesday, March 11, 2014

lífreynslusaga: álagsmeiðsli

ég er náttúrulega ekkert að skíta á mig úr hress- eða ferskleika snemma á morgnanna (10ish) þá datt mér ekki hug að ég færi að labba í ræktina í gærmorgun í slabbinu - baldur tók nefnilega bílinn í skólann. við skulum svosem ekkert ræða núna hvað það er stutt upp í world class.  bara seinna. síðasta vika einkenndist mikið af magavandamálum, ælu og almennri velgju.  lítið um hreyfingu af einhverju tagi.  nema úr rúminu/sófanum og á klósettið.  svo tekur reyndar fáránlega á að æla í 12 tíma.  

ok.  ég allavega var með samviskubit yfir hreyfingarleysi en nennti samt ekki labba upp í rækt enda skíthaugur.  aldrei skal maður deyja ráðalaus þó.  halló youtube. þar er ég mjög heppin að eiga stóra stofu og góðar gardínur (og vonandi umburðarlynda nágranna).  allt í lagi.  ég youtubaði strax bara"how lose belly fat in 30 min".  eðlilega.  alls ekki margar niðurstöður.   virðist ekki vera hægt.

fann þetta myndband allavega.  dröslaðist í gegnum þessar 37 mínútur án pásu, what so ever.  eins og einhver retarður á stofugólfinu.  hopp og vindhögg og hnébeygjur.  eftir æfinguna, gjörsamlega viðþolslaus í eigin svitafossi, skoðaði ég komment fyrir neðan vídjóið þar sem fólk alveg hvumsa yfir þessu og sagðist sumt bara geta komist í gegnum rúmar 15 mínútur af prógramminu án þess að æla lungum úr geðveiki.  gott og vel, ég bara í fantaformi virðist vera.  geðveikt.



já nei.  sú gleði stóð nú ekki lengi yfir.  í gærkvöldi var líkaminn alveg byrjaður að láta mig vita að þetta hafi ekkert verið góð hugmynd.  í morgun öskraði hann af lífs og sálarkröftum hvurn andskotann ég hafi verið að pæla.  þegar ég steig upp úr rúminu bjóst ég allt eins við því að útlimir mínir, nei bíddu - allur líkaminn, væri helblár og þrútinn - svo mikill var sársaukinn.  ég var viðbúin því að hlutar líkamans myndu bókstaflega rifna af mér, einn á eftir öðrum.   ok, ég komst inn á bað til að grenja smá.  það tók rúmar 5 mínútur með ýkjum að setjast á klósettsetuna.  svo grét ég bara meira og sá fram á að þurfa að sitja þar þangað til baldur kæmi heim og gæti bjargað mér.  þó ég væri kannski með brækurnar á hælunum.  það þyrfti þá bara að gerast.  

það gerðist sem betur fer ekki.  þetta ástand hefur þvert á móti lagast í dag.  ég labba nokkurnveginn eins og ég hafi nýverið lært að labba eða að ég eigi frekar heima í dýragarði.  baldur labbaði langt á undan mér í hagkaup áðan - gat ekki viðurkennt fyrir samfélaginu að hann væri í slagtogi með þessum apabarni.  ég er eiginlega alveg viss um að ég eigi ekki eftir að bíða þessa bætur og sé búin að eyðileggja eitthvað í líkamanum fyrir lífstíð.  takk íþróttir fyrir ekkert.  

þessi mynd var svo tekin áðan þegar ég snerti kálfann á mér óvart.



lexía: ekki ofmeta eyrún, ekki ofmeta.  og ekki þið heldur.


Sunday, March 9, 2014

sumarþrá

vá hvað sumarið er mikil snilld.  ég hélt í alvöru að það væri bara komið sumar hérna um daginn.  svo byrjar bara að snjóa.  sunnudagar eru samt líka algjör unaður og núna sit ég ein á kaffihúsi á þriðja bolla að hlusta á billie og ellu og skoða gamlar sumarmyndir og hlakka strax til næsta sumars.  djöfulsins unaður bara.

ég hef aldrei eytt sumrinu annarsstaðar en á borgarfirði.  það eru rúm 25 sumur.  það er ógeðslega mikið af sumrum.  þegar maður er að heiman allan veturinn að þá væri fásinna að vera ekki heima á sumrin hjá mömmu, njóta sumarnáttanna og vera frjáls.  

fyrsta myndin sem ég býð upp á sömmar svolítið sumaræsku mína.  þessar stórhættulegu rólur (sem væru alfarið bannaðar nú til dags! - skil ekki hvernig þær stóðu öll þessi börn af sér) voru það besta í heimi.  þarna má sjá elsu ýta mér og hugrúnu ýta svenna.  svo var hangið á stönginni á milli alveg þangað til mig minnir að pabbi hafi gripið í taumana og hent þessum stórkostlega viðbjóði sem hafði tapað í baráttunni gegn ryðsjúkdómnum ógurlega.


ahh, ljúfir voru þeir dagar sem maður þurfti ekki að nýta sumrin í að vinna.  reyndar unnum við hörðum höndum að því að koma upp kaffihúsinu bleika pardusnum upp í kjallaranum á svalbarði sumarið 2000.  það var frekar skammlíft kaffihús en skemmtilegt.  þetta er tekið í einhverjum fataleiknum þó.  þvílíkur viðbjóður.
+

það var líka gaman að vera á leikskóla á sumrin og fara upp í lobbuhraun í berjamó og drulla svörtu í lok dags.


á sumrin eru líka ættarmót.  þessi mynd ber með sér að það sé ættarmót í gangi enda fjögur afar fögur skyldmenni að leik saman.  held ég sé í leik allavega.  myndi sjaldan kyrkja hann hjört frænda minn.  þarna er ásta líka ljóshærð - ef þið skylduð ekki hafa þekkt hana.


á sumrin erum við líka mikið í að leika okkur bara.  eins og fara í blak (sem ég get ekki sagt að ég eigi skilið verðlaun í) við sætún.  

svo er úlfaldaleigan við fjarðarborg alveg frábær.  


svo eru teknar fjölskyldumyndir stundum á sumrin, eins og á öðrum árstíðum.  þeir sem ætla að gera eitthvað grín um hvort ég hafi ekki mátt vera með á myndinni og svona....burt með ykkur.  þetta var óvart bara.


sumrin eru líka tíminn til að fagna allskonar hlutum með því að henda fræjum af hvönn upp í loftið og brosa og láta rigna yfir sig fræjum sem eru með allskonar sníkjudýrum á sér.  líka þessum ógeðslegu svifaseinu flugum.


 og meira að leika sér.  kubbur.  vinsælt meðal okkar unglinganna.



sólgleraugu og krúttleg börn að láni.  það er sumarið.


ródtripp með ástu.  það er eitthvað.  þarna erum við báðar einhleypar og skelltum okkur því til loðmundarfjarðar í leit að nýjum ævintýrum.  þar var lítið hægt að fiska.


svo er maður svolítið í því bara að fylla sundlaugar með 2l flöskum og hlægja að vitleysunni - eftir að hafa munnblásið í sundlaugina sjálfa.


ok. þetta blogg er orðið um ástu.  kannski er ásta bara sumarið mitt.  


svo fer maður á víkur með mömmu sinni og grillar pylsur á einnota grilli.  eða mínútugrilli eins og mamma getur ekki hætt að segja.  


börn eru kannski allra krúttlegust á sumrin þegar þau mega hlaupa um á bleyjunni í heitum vindinum.  einmitt.  það er alltaf heitur vindur heima.  jebb.  sjávarloftið er svo heitt.


svo kemur bræðslan.  nuff said.


svo stekkur maður hreinlega bara í sjóinn.


ættarferðir á fjallstinda ætti að vera vikulegur viðburður - í það minnsta.  minnir þó að ég hafi þurft að skríða upp síðustu metrana, grenjandi.


sjit.  þetta er eina myndin af baldri í þessari færslu.  það er lélegt.   en þetta er hann að hjóla upp brekkuna heima rúmum 4 mánuðum eftir að hann lá á sjúkrahúsi.  það var ákveðin árangur og því vert að mynda það.  svo er hann bara svo sætur á þessu hjóli.


ég er nokkuð viss um að næsta sumar verður alveg jafn geggjuð og öll hin og er alveg að kúka á mig úr spenningi.  í alvöru.  hvenær er skólinn búinn eiginlega!?

Thursday, March 6, 2014

uppáhaldshlutir heimilisins

það virðist gerast þegar maður fullorðnast að maður eignast allskonar dót.  ég hef til dæmis aldrei átt ísskáp, tvo sófa, stofuborð, sjónvarp, hillur, rúmdýnu, þvottavél þannig sko.  nei aldrei bara.  nú á ég þetta allt saman.   ég get ekki sagt kannski að við höfum mikið verið að spá í þægindum eða hagnýti hvað varðar kaup á húsgögnum í haust (þá er ég klárlega fyrst og fremst að tala um klippan sófana okkar sem rúma okkur á hvora kantana og við getum eiginlega ekki legið saman upp í sófa án þess að ég sé með olnboga og hæla í augunum á baldri).  en hvað um það.  við eigum 2 sófa.  getum bara hundskast til að hanga sitt í hvoru lagi.  sem við gerum.  mikið.  stundum með hedfóna.  mögulega eru klippan sófarnir að rífa stoðirnar undan þessu sambandi.  kannski er það ástæðan fyrir að nágrannakonan heldur að við séum systkin.

en hvað um það.  mikilvægari eru hlutirnir sem gefa heimilinu sál.  það hef ég sagt áður.  ég á helling af svoleiðis hlutum.  flestir virðast þeir tengjast ömmum mínum.  það er ekkert verra enda báðar svo einstakar.


mamma hefur síðustu ár tekið upp á þeirri snilld að leita ekki langt yfir skammt að jólagjöfum handa örverpinu sínu.  eiginlega þarf hún að teygja sig úr sófanum á aðfangadag til að grípa í eitthvað.  eins og  í hittifyrra þegar ég fékk þennan kistil.  hann hefur verið inn í stofu heima frá því að ég man eftir mér.  stílaður á ömmu hrefnu árið 1956, frá mömmu hennar.  handmáluð gersemi. nú á ég hann.  



Í fyrra gaf hún mér svo þessa mynd sem einmitt hefur líka hangið inn í herbergi hjá mömmu og pabba síðan ég man eftir mér.  minnir að þetta sé mynd frá einhverri langömmu minni á djúpavogi.  svo falleg biblíumynd.  aah, ég sakna biblíumyndanna í sunnudagaskólanum.  


talandi um fallegar myndir þá held ég mikið upp á þetta málverk frá ömmu elsu í sæbergi.  hún málaði landslagsmyndir frá borgarfirði handa öllum börnum og barnabörnum sínum þegar hún var um áttrætt.  við erfisdrykkjuna hennar mættu allir með sína mynd og úr varð falleg málverkasýning.  


og ekki er hin amman ólagnari.  þessa litaði hún handa mér í fyrra og setti í ramma og sendi mér.

það síðasta sem ég keypti mér í góða hirðinum var þessi plötukassi.  á þessari hlið stendur canada dry en á hinni hliðinni egils.  hann er aðeins farinn að láta á sjá greyið en er kominn í góðar hendur.  lappa upp á hann von bráðar.  ukuleleið gaf baldur mér í útskriftargjöf.  þar vissi hann alveg hvað hann var að gera.  svo er billie holiday platan auðvitað best.  það sem vantar tilfinnanlega núna:  plötuspilari.  hehe. he.


ég elska bókaheimili.  ég vil eiga fullt af bókum.  ég vil að börnin mín alist upp við að lesa múlaþing og gletting.  mínar þjóðfræðibækur eru í einum skáp.  trúarbragðabækurnar hans baldurs eru í öðrum.  


þetta nýja krútt fengum við í jólagjöf og heldur sig aðallega bara upp á skáp og hefur það kósý.


nýja uppáhalds eru póstkortin frá ljósmyndasafni reykjavíkur sem prýða einn vegg.  


jón sigurðsson stendur nú vörð um skartgripi húsmóðurinnar.  áður fyrr gerði hannes hafstein það.  hann týndist hinsvegar í flutningum.  eflaust fundist þetta heldur óvirðuleg staða.  skartgripahengið er eftir áslaugu hönnu og er fáránlega hentugt.


og í lokin er það trompið.  yfirlýst tromp.  birgitta systir gaf mér þennan púða í 25 ára afmælisgjöf í desember.  hún bjó hann sjálf til.  EKKI nóg með það heldur er hann búinn til úr velúrpeysu sem amma í sæbergi var alla jafna í á gamalsárum.  það var meira að segja ennþá ömmulykt af honum þegar ég fékk hann.  held ég sé búin að hnusa hana alla úr.  hún er komin upp í heila.  og verður þar.





Tuesday, February 25, 2014

rúllustigablætið

ég held að mér myndi líka mun betur við lífið ef í því væru fleiri rúllustigar.  í alvöru.  mér líður hvergi betur en í rúllustigum.  einu sinni fóru mamma og pabbi í bíó á titanic í kringlunni (notabene, mamma fór þrisvar á titanic í bíó og fékk svo vídjóspóluna í jólagjöf frá hugulsömum börnum hennar - alveg sjúkíetta).  ég fór auðvitað ekki með þegar ég vissi að ég hefði möguleikann á því að ferðast upp og niður rúllukragastigann í kringlunni í þá þrjá klukkutíma sem myndin væri í sýningu.  ég var ekkert búin að fara margar ferðir þegar ég var vinsamlegast beðin um að drulla mér úr rúllustiganum.  þetta væri ekki leiktæki.   mig minnir að elsa systir hafi verið með mér, þá á fermingaraldri með spangir og gleraugu og skammaðist sín aldrei meir fyrir vanheilu systur sína í afabolnum sem ljómaði öll og skrækti úr gleði meðan hún prófaði allskonar stellingar í stiganum. 

æj og ó, litla sveitastelpan sem langaði bara að upplifa gaman borgarinnar sem ég hafði svo oft séð í fréttunum.  

ég er löngu búin að átta mig að þetta eru engin leiktæki.  í dag eru þetta svona hugleiðslutæki.  ég vildi að allir rúllustigarnir í kringlunni væru svona fjórtán sinnum lengri en þeir eru.  þá fæ ég enn lengri tíma í að virða fyrir mér fólkið og þarf ekki að hugsa um að lyfta fótunum eða labba á.  uppáhalds rúllustiginn minn er á kastrup.  hann er samt ekki nærri því nógu langur en kemst því nærri.  

ég veit ekki, kannski er þetta svona eins og að láta keyra sér um í kerru eða draga sig á sleða.  þurfa ekki að hugsa neitt.  ég er svo hrikalega góð í því.  ég man eftir að hafa þvingað móður mína til að keyra mig um í kerru og reyna að svæfa mig, þá rúmlega 5 ára sennilega.  yfir mig afbrýðissöm yfir því að þorri (þremur árum yngri) fékk að sofa í kerru í göngutúrum en ekki ég.  ég sofnaði ekkert.  bað reyndar líka um að fá að pissa í bleyju í lautarferð á svipuðum aldri.   það er svo mikið allt önnur saga og óviðeigandi.  

að lokum er hérna myndband sem einhver hugulsamur einstaklingur hefur tekið upp bara fyrir mig.  held ég.  ég get horft á þetta í marga klukkutíma bara.  geri það samt ekki, sérstaklega ekki hérna upp á bókasafni.  


fæ kitl í heilann við þetta.   
hvað er að mér.
eru engir fleiri að tengja við þetta?

Tuesday, February 18, 2014

splitt- áskorunin 2014

ég hef haft hug á markmiði mjög lengi.  í alveg mörg ár.  aldrei framkvæmt.  stundum virðist bara miklu betra að hugsa í mörg ár um hugmyndina um að gera eitthvað.  nú verð ég að framkvæma.  

ég ætla að komast í splitt á árinu 2014, gott fólk.  

ég er auðvitað búin að gúggla hvernig maður gerir það.  helst sko hvernig maður getur gert það á aðeins einum degi.  finn ekkert um það.  en guði sé lof fyrir jútjúb og allt sjittið þar.  ófáir hlutirnir sem ég hef lært af einhverjum lúðum út í heimi.  stilli einmitt alltaf ukulele-ið mitt eftir einhverju vídjói frá gömlum manni í asíu.  ekkert helvítis tuner app fyrir mig.

á jútjúb eru auðvitað milljón flexibility myndbönd.  stundum skil ég ekki af hverju ég fer í ræktina þegar ég get í raun gert allar æfingarnar upp í rúmi bara, með jútjúb.  

en hvað um það.  hér er t.d. eitt sem mér líst agalega vel á.


ég er náttúruleg ekki nálægt því að vera eins lipur og þessi ágæta stúlka.  þetta verður áhugavert.  ástæðan fyrir því að ég pósta þessu hér er auðvitað svo fólk geti farið að hvetja mig áfram og látið mig fá samviskubit með spurningum þegar ég hef ekki gert þessar æfingar dögum saman.  en í alvöru, ég mun gera þetta á hverjum degi þangað til ég get þetta.  ekki spyrja baldur neitt út í það samt, trúið mér bara.

það verður áhugavert að sjá hvað þetta tekur langan tíma.
ÁFRAM SPLITT 2014.

Wednesday, February 5, 2014

good old skerjó

haustið 2010 fluttum ég og ásta hlín í gamalt hús í skerjafirði og héldum á vit nýrra ævintýra.  háskóla- og drykkjuævintýra.  einhleypar og snarvitlausar.  


ég féll fyrir þessari íbúð um sumarið eftir að hafa skoðað hana.  mikill karakter í gangi.  íbúð sem allskonar skítmix einkenndi.  þar sem vantaði gólfefni var yfirleitt búið að hrúga steinum til að fylla upp í og yfir óútskýranleg göt í gólfi var búið að negla mottu fasta yfir.  enginn vissi eða vildi vita hvað leyndist þar undir.  þrátt fyrir allt þetta þá hefur mér örugglega aldrei liðið jafn vel í eigin íbúð - meira að segja þegar mig dreymdi einhvern sem sagðist vera "konan á gömlu hæðinni". say what?
ótalmargar góðar minningar tengjast þessum stað - hlátur, grátur, hláturgrátur, gleði, sorg, pirringur og allskonar fleira sem fylgir sambúð sem stelpu.  ég deildi íbúðinni sennilega jafn mikið með ástu og öllum öðrum íbúum hússins því það voru svo þunnir veggir.  þess vegna lít ég á hósta-kristján í íbúðinni við hliðina sem jafngóðan vin og ástu - og eins er farið með konuna á efri hæðinni sem fannst greinilega ekki nógu hljóðbært þannig að hún ákvað að taka gólfefnin af íbúðinni sinni og þannig magna allan hávaða frá sér.  kaffivélin á morgnanna hjá henni hljómaði eins og boeing þota væri að taka á loft bara upp á þaki.  það á ekki að vera hægt.
svo ég tali nú ekki um hvað það er mikil snilld að búa við hliðina á þyrlupalli.  og þarna mómentin þegar flugvirkjarnir þurfa að prufa flugvélarnar út á miðjum velli og þenja þær í botn.  það voru móment sem maður þurfti að halda í allt lauslegt í eldhúsinu - því bókstaflega allt hristist.  kennaratyggjó var því staðalbúnaður í einarsnesinu.  

þarna erum við að flytja inn í annað sinn - fyrir og eftir.

jónas bjó hjá okkur í hálft ár.  stundum gerðum við pizzur.

sjáiði bara.  ég fyllist söknuði.


eftir þetta með þarna "konuna á gömlu hæðinni" þá langaði mig að athuga hvort það væri eitthvað til í því steitmenti.  var samt varla að þora því strax ef að einhver hrottalegur atburður hefði kannski átt sér stað í húsinu sem myndi skilja mig eftir andvaka alla dagana sem voru eftir af búsetu minni þarna.  sendi mail samt á ingu láru á ljósmyndasafni þjóðminjasafnsins sem gerði sé spes ferð út í skerjó til að skoða húsið.  hún sagði að húsið væri byggt um 1885 á eyrarbakka og hefði verið flutt í kringum 1930 út í skerjafjörð.  vá, það er svo fáránlega nett.   svo sendi hún mér mynd af því sem er úr myndasafni sigfúsar eymundssonar ljósmyndara.  þess má geta að konan á gömlu hæðinni virðist bara hafa verið að ljúga í mig.  


finnst ykkur ekki sturlað að þetta hús til hægri hafi verið flutt alla leið frá eyrarbakka og að ég hafi búið í því í 2 ár?  ég er búin að vera bara heilluð í rúmlega 2 ár yfir þessu.  ÞETTA ER SVO GEGGJAÐ.  nú keyri ég þarna framhjá (eða þið vitið, geri mér ferð) og stoppa í beygjunni fyrir utan.  sem verður að teljast frekar óhugnalegt.  eflaust óþægilegt fyrir núverandi íbúa íbúðarinnar þegar ókunnugur vegfarandi á ryðguðum nissan almera með lint í dekkjum starir inn um gluggann til að hnísast.   en só vott.  

þetta var samt bara það eina sem ég vildi segja.  hvað þetta er geggjað.